Berglind Ósk nýr verkefnastjóri GPMLS

Berglind Ósk Einarsdóttir, nýdoktor, tók nýverið við verkefnisstjórn á GPMLS af Guðrúnu Valdimarsdóttur, dósent við Læknadeild. Berglind mun sinna starfinu í hlutastarfi samfara því að sinna rannsóknum í aðalstarfi.

Berglind útskrifaðist með BSc gráðu í sameindalíffræði frá Háskóla Íslands árið 2007 og hlaut svo MSc gráðu í Líf- og læknavísindum frá sama háskóla árið 2010. Meistaraverkefni hennar fjallaði um 8p12-p11 genasvæðið í brjóstaæxlum og vann hún það undir umsjón Dr. Ingu Reynisdóttur og Klin. Próf. Rósu Björk Barkardóttur á Frumulíffræðideild Landspítalans. Hún fluttist til Svíþjóðar þar sem hún vann að doktorsverkefni sínu í Líf- og læknavísindum við Sahlgrenska Cancer Center við Háskólann í Gautaborg, undir umsjón Próf. Jonas Nilsson árin 2013-2017. Á þeim árum vann hún að þróun nýrra meðferðarmöguleika fyrir sortuæxlissjúklinga ásamt því að stunda for-klínískar prófanir og rannsóknir á nýju krabbameinslyfi.

Berglind hlaut nýdoktorastyrk frá Háskóla íslands árið 2019 og starfar sem nýdoktor í rannsóknahóp Próf. Eiríks Steingrímssonar við Lífefna- og sameindalíffræðideild Háskóla Íslands. Þar stundar hún áfram rannsóknir á sortuæxlum, nú með áherslu á upphafsstig sortuæxlismyndunar og samspil sortuæxlisfrumna við ónæmisfrumur meðan á sortuæxlismyndun stendur.

Við óskum Berglindi velkomna til starfa og hlökkum til samstarfsins á sama tíma og við þökkum Guðrúnu fyrir frábært starf.